Sölugluggi
15. janúar 2001


 
Innkaupakarfa: 0 stk.   










  Til baka á forsíðu
  Möguleikar
Að kaupa

Sendu vini þínum gjöf

Skrifaðu þína eigin umsögn
  Toppurinn...
... í rokki
... í poppi
... í rappi
... í dansi
... í klassík
... í jassi/blús
  Ýmislegt
Skoða flokka
Vinsældarlistar
Mælt með
Nýjar sendingar
Nýtt - væntanlegt
Tilboðshorn
  Annað
Safnplötur
Kvikmyndatónlist
Verðlaunaplötur
Bara það besta
  Bónusklúbbur
Hvað er það?
Skráðu þig hér
Meðlimir
Maus
Í þessi sekúndubrot sem ég flýt
Útgefandi: SPROTI Verð: 2.199,-
Flokkur: CD ÍSL.
Bónusklúbbsverð: 1.979,-
Vörunúmer:
SPROTI012

 

 Lagalisti:

01. Strengir
02. Báturinn minn lekur
03. Dramafíkill
04. Gefðu eftir
05. Gerð úr við

  06. Allt sem þú lest er lygi
07. Kerfisbundin þrá
08. Kemur og fer
09. Bílveiki
10. Maðurinn með járnröddina

 Um plötuna:

Þann 4. nóvember s.l. kom út fjórða plata hljómsveitarinnar Maus, réttum tveimur árum eftir að sveitin sendi frá sér skífuna Lof mér að falla að þínu eyra.

Það má segja að sú plata hafi komið Maus rækilega á kortið í íslensku tónlistarlífi því fyrir þá plötu hlutu þeir félagar níu tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna og voru kjörnir Hljómsveit ársins. Að auki komust 6 lög af plötunni inn á Íslenska listann sem er fáheyrt. Nýja platan, sem ber heitið Í þessi sekúndubort sem ég flýt, er einstaklega vönduð en það voru þeir Páll Borg og Daníel Ágúst Haraldsson (oftast kenndir við Gus Gus) sem stjórnuðu upptökum í félagi við Mausara.

Platan inniheldur 10 lög, m.a. Strengir, Allt sem þú lest er lygi og Kerfisbundin þrá en við það síðastnefnda verður gert myndband sem frumsýnt verður um miðjan nóvember. Myndbandið verður tekið á 35mm filmu, sem er mjög óvenjulegt í íslenskri myndbandagerð, og leikstjóri er Reynir Lyngdal sem hlotið hefur fjölda verðlauna fyrir stuttmyndir sínar bæði hérlendis og á erlendum kvikmyndahátiðum.

Hönnun umslags plötunnar var í höndum Þorbjörns Ingasonar og stílisti var Hrafnhildur Hólmgeirsdóttir. Maus heldur útgáfutónleika í Íslensku Óperunni á útgáfudag. (Skrifað í október 1999)

 Umsagnir
Guðmundur Óli
  Besti diskur í heimi! (14.2.2000)
Þórður Halldórsson
  Já, Maus (Í þessi sekúndubrot sem ég flýt). Stakasta snilld. Sko, lof mér að falla að þínu eyra var og er meistaraverk og þessi plata er ekkert síðri og verður alltaf betri og betri því oftar sem að ég hlusta á hana... (13.11.1999)
Halldór Sigfússon
  Loksins loksins, það er kominn út nýr diskur með hljómsveitinni Maus. Ég verð að viðurkenna að ég var búinn að bíða lengi eftir þessum disk og með mikilli eftirvæntingu en þó smá kvíða, því ég var hræddur um að þeir væru búnir að toppa eftir plötuna „Lof mér að falla að þínu eyra" sem var og er hrein snilld og einhver skemmtilegasta partýplata seinni ára. En það er sko greinilegt að þeir Mausarar eiga mikið inni því platan „í þessi sekúndubrot sem ég flýt" er einfaldlega frábær og það besta sem Mausarar hafa sent frá sér til þessa. Platan er mjög þétt og heilsteypt en þó fjölbreytt. Textarnir oft mjög skemmtilegir og eins gefa þessir strengir og púkaplístrurnar(blásturshljóðfærin) þessu skemmtilegan svip. Eins og ég hef áður sagt finnst mér platan mjög heilsteypt og það er aðeins eitt lag sem ég kann ekki að meta,Bílveiki. Öll hin er mjög grípandi og skemmtileg. Bestu lög plötunnar eru báturinn minn lekur, Allt sem þú lest er lygi og Kemur og fer.
Að endingu vil óska þeim Mausmönnum til hamingju með diskinn og vona að þeir haldi áfram á sömu braut.

Halldór Sigfússon (18.11.1999)

 Dómar:

DV, Fókus 12. nóv. 1999

Maus - Í þessi sekúndubrot sem ég flýt - ****: (4 stjörnur af 5)

Tertuhlaðborð Mausaranna

Svei mér þá ef það eru ekki bara komin rúmlega sex ár síðan Maus sigraði í Músíktilraunum. Strákarnir úr Árbænum dunda sér í rokkvitleysunni sem aldrei fyrr og eftir tveggja ára hlé snúa þeir nú aftur með fjórðu plötuna.

Fyrstu tvær voru svona og svona en með þeirri þriðju (Lof mér að falla að þínu eyra 1997) fékk bandið loks almennilega athygli því lögin voru orðin grípandi rokklög sem skildu slóð eftir sig í heilum hlustenda. Það sama er upp á teningnum hér.

Í Rokkkaupum er rokkið hjá Maus í sérhillu og það er séríslenskt eins og harðfiskur. Það heyrist strax að þetta er Maus. Auðvitað er það brothætt söngrödd Birgis sem kemur fyrst upp um Maus. Þeir sem þola ekki Maus skrifa óþolið á sönginn. En Birgir hefur aldrei verið jafn öruggur og hér enda hélt Daníel Ágúst í höndina á honum þegar platan var tekin upp. Og þau eru aldeilis alls konar blæbrigðin sem tekist hefur að kreista úr þessum takmörkuðu raddböndum.

Hljóðfæraleikarar Maus eru menn leikfléttna og "þeir eru öruggir í öllum sínum aðgerðum" eins og færir íþróttamenn. Þeir fara þó aldrei auðveldustu leið heldur finnst þeim gaman að sprikla í kringum tónana. Til viðbótar fjörmikilli rokkhefðinni glymja á köflum strok- og blásturshljóðfæri í útsetningum Samma Jagúars. Það er algjör rjómi á tertuna sem aldrei slettist og lekur niðrá borð.

Platan byrjar suddalega vel en hún lyppast aðeins niður í endann. Lögin eru tíu. Fimm eru frábær, þrjú eru fín, tvö ekkert sérstök. Það er nú ágætis hlutfall hefði maður haldið. Hnausþykkar djöflatertur eru fiðlurokkballöðurnar Draumafíkill og Kerfisbundin þrá -- hlustendur munu standa á andlegu blístri og hvað er betra en að éta yfir sig af góðu rokki?

Strengir og Gefðu eftir eru flott rokklög, það síðarnefnda meira "grúfí" en Maus hafa áður verið. Báturinn minn lekur er svo enn eitt frábæra Maus-lagið, hægt/hratt, og Birgir flytur það krúttlega. Í því er hann að syngja um miðaldra mann sem er að fjara út og missa hárið á "aðgerðaleysisströnd". Dálítið háalvarlegur alltaf í textagerðinni, hann Birgir, en ofarlega í fyrstu deild íslenskra textasmiða, það er ekki spurning, þó maður trúi sjaldnast að hann sé að syngja frá eigin brjósti. Vonum allavega að depurðin sé ekki öll ekta, hans vegna, heldur skáldskapur.

"Í þessi sekúndubrot sem ég flýt" er besta plata Maus til þessa. Svo einfalt er það nú.

Dr. Gunni



Morgunblaðið 17. nóv. 1999

Þróun án fórna
Í þessi sekúndubrot sem ég flýt, fjórða geislaplata hljómsveitarinnar Maus.
Maus eru Birgir Örn Steinarsson, Daníel Þorsteinsson, Eggert Gíslason og Páll Ragnar Pálsson. Lög og útsetningar eru eftir hljómsveitarmeðlimi en Birgir Örn semur alla texta. Platan var tekin upp í ýmsum hljóðverum frá júlí til september á þessu ári. Páll Borg hljóðblandaði. Sproti gefur út en Skífan dreifir.

SAGA MAUS er orðin nokkuð löng ef miðað er við lífdaga íslenskra poppsveita almennt. Sveitin gaf út sína fyrstu plötu árið 1994 og er nýr geisladiskur hennar Í þessi sekúndubrot á meðan ég flýt sá fjórði. Á honum eru tíu lög, öll eftir sveitina. Maus hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína alla tíð og þótt með fremri hljómsveitum seinni tíma. Það þarf því engan að undra að geisladiskur sá sem nýlega kom út sé afbragð íslenskrar tónlistar. Lögin tíu eru öll vel samin eins og við var að búast og textagerð með ágætum, meðlimir sveitarinnar eru sjóaðir orðnir í spilamennsku og hljóðfæraleikur nær óaðfinnanlegur. Allt þetta hefur Maus sýnt áður og eru það því ekki gæði tónlistarinnar sem vekja athygli á plötunni enda hefur það ávallt verið aðal sveitarinnar hve vel hefur verið vandað til verka. Það sem vekur hins vegar athygli er sú breyting sem orðið hefur á sveitinni.
Í upphafi dró Maus nokkuð dám af "indie"- og neðanjarðarsveitum svo kölluðum og hefur það alla tíð verið gott og blessað, sveitir af þeirri tegundinni eru þekktar fyrir að gera vandaða tónlist og vera vandar að virðingu sinni. Reyndar hefur viljað brenna við hjá sumum þeirra að metnaðurinn við að gera "alvöru" tónlist hefur orðið svo mikill að spilagleðin hefur horfið, þær hafa tekið sig of alvarlega. Þótt aldrei hafi vantað á spilagleðina hjá Maus hefur tónlist hljómsveitarinnar á stundum verið þung.
Skref var reyndar tekið í aðra átt með síðustu geislaplötu, Lof mér að falla að þínu eyra, var meira í átt að hefðbundnu poppi og sýndi þeirri mætu tónlist hvernig hún ætti að vera. Í þessi sekúndubrot sem ég flýt er skrefið stigið til fulls, tónlistin er kraft- og tápmikil og lögin tíu full af ómþýðum laglínum sem fæstir geta leikið eftir. Krafturinn er ótrúlegur orðinn í sveitinni, svo mjög reyndar að tónlistin skilar sér vart fyllilega á plasti, meiri upplifun er orðin að berja hljómsveitina augum á tónleikum. En þetta tekst Maus án þess nokkurn tíma að týna uppruna sínum sem liggur í þenkjandi og vel smíðaðri tónlist.
Textar eru sem áður vel hugsaðir, t.a.m. má nefna Dramafíkil, Gerða úr við (sic) og Manninn með járnröddina, með skemmtilegum texta hvar Birgir svarar fyrir rödd sína. Vankantar á rödd Birgis Arnar hafa orðið mörgum umtalsefni en þessi sérstaka rödd, sem Birgir hefur reyndar nokkuð gott vald á, orðið er eitt af auðkennum Maus og ómissandi hluti af hljómi hennar. "Maðurinn með járnröddina / tek að mér ljúfasta lag og brýni það / því ég syng ekki, ég sker á blygðunarkennd þína."
Leiðinlegt lýti á textasíðum geislaplötunnar er að þar er að finna þónokkrar stafsetningarvillur. Málvillur eru reyndar fáar í textunum en nauðsynlegt hlýtur að vera þegar lögð er áhersla á textagerð að prófarkalesa texta vel áður en ráðist er í útgáfu.
Hljóðfæraleikur er sem fyrr segir nær óaðfinnanlegur. Skemmtilegt krydd á plötuna eru strengir og blástur en hefðu þó jafnvel verið óþarfi, sveitin stendur vel fyrir sínu í sígildri rokkuppstillingu. Lagasmíðar eru og frábærar, nægir þar að nefna Báturinn minn lekur, frábært lag, með þeim rólegri á plötunni, Manninn með járnröddina og Gefðu eftir. Skemmtilegt er að heyra í þessu og reyndar fleiri lögum að hluti af þeim krafti sem kominn er í sveitina er tekinn úr níunda áratugs poppi. T.a.m. er ekki laust við að Gefðu eftir minni örlítið á Sykurmolana sálugu. Einnig má taka til t.d. lögin Gerð úr við, með frábærri bassalínu og Strengi, sem er fínn poppsmellur.
Heildarmyndin er góð, platan er mjög skemmtileg og sýnir enn að Maus á langt í land með að verða södd lífdaga. Hljómurinn er einnig heilsteyptur og á vel við. Umbúðir geislaplötunnar eru skemmtilegar og eiga Tobbi, Hrafnhildur og Bjarni Gríms hrós skilið fyrir þær.
Eftir síðustu plötu voru Mausmenn komnir í þann vanda sem metnaðarfullar íslenskar hljómsveitir glíma gjarna við, vinsældunum var náð, en takmarkað er hvað tónlistarmenn á svo litlu landi geta náð langt án þess að gerast verktakar og ólíklegt að áhangendahópur sveitarinnar stækki mikið. Íslenskar hljómsveitir kvarta oft undan því að sífellt sé verið að leika fyrir sama fólkið og markaðurinn sé ekki til staðar. Svar Maus við þessu er einfalt, að gera einfaldlega aftur góða plötu, þróast áfram og velta sér ekki upp úr því hvort sífellt sama fólkið sé að hlusta á tónlistina. Markmiðið er að gera tónlist og afraksturinn er eftir því.
Gísli Árnason.

Sjá einnig